top of page

Ingólfur Þór Árnasson

Ingo_FacebookMyndir_13_edited.jpg

Ég tileinka þessa vefsíðu minningu pabba míns, Ingólfs Þórs Árnasonar.

Listamannsnafnið hans var Indigo. Hann fæddist í Reykjavík 24. febrúar 1976 og lést í Portúgal 22. febrúar 2025.

 

Hann var sjómaður, sjálflærður í tónlist og myndlist. Hann var alltaf að skapa og hann sá allt í list, fyrir honum var lífið eitt stórt listaverk; eins og ein mynd af honum sem átti svo vel við hvernig hann sá og lifði lífinu: ‘’I’d rather die of passion than boredom.’’

 

Það virtist ekki skipta máli á hvaða tímabili í lífinu hann var, listin var alltaf til staðar. 

Hvort sem það var að teikna, mála, taka myndir, semja tónlist, spila á hljóðfæri, skrifa bók eða gefa listrænar gjafir.

 

Það sem einkenndi pabba var að hann vildi ekki lifa í neinum kassa. 

Hann lifði eftir sínum eigin reglum, sem gerði hann svo einstakan.

Eins og honum var lýst: ,,Hann gat ekki gert neitt sem var venjulegt.’’

 

Frá ungum aldri vildi hann skapa og funkeraði best þannig.

Eins og vinir og fjölskylda lýsa honum þá var listin og sköpunargáfan alltaf það sem einkenndi hann. 

 

Það hefur verið ótrúlega fallegt, græðandi og lærdómsríkt að fara í gegnum öll verkin hans, hvort sem það eru ljóð, lög, málverk eða teikningar.

Að setja sig inn í öll verkin hans sem eru frá árunum 1989 til 2025 er eins og hann hafi ómeðvitað samið í þátíð, nútíð og framtíð. 

 

Hann tjáði sig mikið í gegnum listina og það er alltaf hægt að sjá í verkunum hans hvernig honum leið. 

Þar er tómleiki, einmanaleiki, sorg en líka ást, gleði og hamingja, líkt og fullkomin harmonía.

Tilfinningar og líðan í listaverkunum hans voru eins og hringur sem hefur hvorki upphaf né endi. 

 

Þegar sú hugmynd kom að gera listasýningu til að heiðra minningu hans, fannst mér sjálfsagt að gera listabók.

Pabbi hafði nokkrum sinnum gefið mér bækur tengdar list, hvort sem þær voru keyptar og krotaðar, eða bækur sem hann bjó til sjálfur.

Þess vegna fannst mér listabók í minningu hans eiga svo vel við. 

 

Mörg af verkum hans eru eingöngu rafræn, og fá því að njóta sín best geymd á einum stað í listabók. 

Sum málverk og teikningar er þó hægt að panta eftirprentun af á vefsíðunni

 

Ég mæli með að þú gefir þér góðan tíma til að skoða listabókina eða vefsíðuna.

Gera það með opnum huga, fara í gegnum allar þær tilfinningar sem fylgja og setja þig í þau spor sem þér finnst henta hverju verki eða texta. 

Hvert verk er ótrúlega einstakt, sum bera meiri þýðingu og tilfinningu en önnur.

 

Það fer ekkert á milli mála að pabbi var gull af manni.

Hann vildi öllum það besta, sá það besta í öllum, var vingjarnlegur við alla og ótrúlega góður vinur. 

Hann hafði einstakt ljós yfir sér sem smitaði út frá sér.

 

Margt af því sem hann skildi eftir sig er svo óendanlega dýrmætt og kennir manni hvernig hægt er að lifa lífinu til fulls og sjá lífið á litríkan hátt. 

 

Þín dóttir, Ylfa Rós.

CONTACT

Hægt er að hafa samband í skilahólfið.

Öll listaverk á heimasíðunni eru watermarked en óskir á verkum er hægt að senda fyrirspurn um. 

Við stefnum að því að halda listasýningu 24.02.2026. 

  • Facebook
  • Instagram

© 2025 by Ylfa Rós Margrétardóttir Richter (Ingólfsdóttir)

bottom of page